Ein óvæntasta uppákoma í íslensku tónlistarlífi í dag er Cacksakkah. Á innan við ári hefur hann gefið út sjö lög á og á leiðinni eru fyrstu frumsömdu lögin sem koma út á föstu formi fyrir jólin. Með þessum lögum ætlar hann að bjarga íslensku rappsenunni en hún er sögð dauð.
Fyrir stuttu síðan opnaði Cacksakkah heimasíðu og hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa.
“Þúsundir skoða síðuna mína daglega. Hlustun á lögin mín á Spotify og Youtube hefur margfaldast síðan ég opnaði síðuna. Ég hef fengið hrúgu af bréfum frá aðdáendum sem geta ekki beðið eftir nýju plötunni minni. Enda hafa þeir ekki enn heyrt mig rappa. Eins er verið að biðja mig um að koma og skemmta en sem betur fer er samkomubann. Ég myndi ekki geta spilað á tónleikum núna, ég mynda bara gráta. Ég þarf náttúrulega bara að fá að jafna mig aðeins á þessu öllu saman. Drekka kaffi upp í rúmi og spjalla við mömmu.”
Cacksakkah segist átta sig á því að framundan séu ef til aðeins öðru vísi tímar, eftir að vinsældir hans náðu nýjum hæðum.
“Nú er ég búinn að gera mig að listaverki og fólk vill bara meir og meir. Þetta er búið að vera svolítið erfitt núna, þó ég sé auðvitað mjög þakklátur.”
Cacksakka segir að svettið hafi þó hjálpað honum að halda sér á jörðinni.
“Ég fer í svett einu sinni í viku og næ því að halda öllu egói í algjöru lágmarki, í raun losna ég algerlega við egóið. Ég endurfæðist bara í hverri viku og næ því að halda mér á jörðinni þrátt fyrir þessa óvæntu athygli sem ég er að fá.”