Nú eru liðnir um 11 mánuðir frá því að Cacksakkah gaf út sitt fyrsta lag. Svona opinberlega. Var það lagið Nú skal segja, sem kom út rétt fyrir jólin í fyrra og varð eitt vinsælasta jólalagið það árið, þó það hafi komið seint út, eitthvað um 20 desember.
Cacksakkah tvíefldist við við þessar viðtökur og á nýju ári gaf hann út smáskífuna Elsku Frikki , sem einnig fór gríðarlega vel í landann og dreifðist víða. Þá var ekki aftur snúið og næst var ekki ráðist á garðinn sem hann var lægstur og Cacksakkah túlkaði lagið Think about things á sinn stórfenglega hátt, en lagið var einmitt valið sem það sjötta besta árið 2020 af Time og þið getið því ímyndað ykkur að lagið fór í hlustun víða um heim.
Í kjölfarið komu svo sumarsmellirnir Leyndarmál frægðarinnar og París Norðursins, lög sem fóru með Íslendingum í útilegur og partý sumarsins. Snemma í haust var svo ráðist í stærsta lagið til þessa, Creep. Það fékk meiri dreifingu en öll hin lögin enda gríðarlega mikilfengleg útgáfa af þessu lagi.
Alla þessa tónlist er hægt að nálgast á hinum ýmsu streymisveitum, ekki bara Spotify sem er tengd við nöfn laganna hér í þessum pistli. Má þar nefna Apple Music, Tidal, Amazon music, Soundcloud, Youtube og síðast en ekki síst Bandcamp þar sem hægt er að kaupa lögin beint af Cacksakkah.
Cacksakkah vill þakka fyrir þessar móttökur sem hann og tónlist hans hefur fengið hefur hann ákveðið að opinbera bókhald sitt. Fyrir streymi á streymisveitum þessa 11 mánuði sendi hann reikning til dreifingaraðila síns að upphæð 1.176kr. Stefgjöld runnu til höfunda. Sala í gegnum Bandcamp er 6 dollarar (4 og hálfur í vasa Cacksakkah) en sú upphæð er of lág til að hægt sé að fá hana millifærða á Vísa-kortið.
Svona er það nú að vera tónlistarmaður í dag, peningarnir flæða inn. Cacksakkah hlakkar til að takast á við árið 2021 en þá fara stefgjöldin að kikka inn, því von er á frumsömdu efni. Þá verða búnir til sjóðir til styrktar allskonar.